Með frelsi í faxins hvin
Bókaútgáfan Hólar er útgefandi bókarinnar Með frelsi í faxins hvin: Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni.
Hermann er hestamaður frá Vík í Mýrdal, sem hefur margsinnis vakið athygli á landsvísu í tengslum við hugmyndir hans, uppátæki og reynslu á vettvangi hestaferða. Höfundur bókarinnar er Hjalti Jón Sveinsson, fyrrverandi skólameistari.
Í bókinni er brugðið upp mynd af hestamanninum Hermanni; ekki einungis í tengslum við umræddar hestaferðir því að jafnframt er fjallað um hvernig hann elur upp og temur hross sín, heldur þau og þjálfar. Við sögu kemur hestafólk, lífs og liðið, vítt og breitt um landið og nokkrir vinir og félagar Hermanns ljá bókinni rödd sína.
Í bókinni er sagt frá ferðum og leiðöngrum Hermanns sem hann hefur skipulagt af mikilli
hugsjón, einkum Stjörnureiðinni um þvert og endilangt Ísland, Flosareiðinni um slóðir
Njáls sögu og Vatnareiðinni frá Hornafirði til Hellisheiðar.
Bókin er prýdd fjölda mynda og korta sem gera lesendum kleift að fylgjast með hinum
ýmsu áföngum og áskorunum sem mætt hafa Hermanni og samferðafólki hans í allt að
40 daga ferðum.
Bókin er tileinkuð minningu Guðlaugs Gunnars Björnssonar, Gunna Björns, sem lést á síðasta degi hestaferðar hópsins Með frelsi í faxins hvin, í ágúst 2024. Gunni var einn félaga Hermanns í Vatnareiðinni og ferðuðust þeir saman í mörg ár ásamt fjölskyldum sínum og vinafólki.
Höfundur bókarinnar, Hjalti Jón Sveinsson, var ritstjóri tímaritanna Hestsins okkar og Eiðfaxa um árabil og hefur skrifað nokkrar bækur um hesta og hestamennsku, þar á meðal verkið Íslenski hesturinn ásamt Gísla B. Björnssyni, hestamanni og grafískum hönnuði.
Stjörnureiðin svokallaða var skipulögð um þvert og endilangt Ísland. Markmiðið var að ríða út á ystu odda í suðri og norðri, vestri og austri; frá norðvestri til suðausturs og suðvestri til norðausturs, og láta leiðirnar mynda stjörnu á Íslandskortinu. Var leiðangrinum skipt í tvo áfanga. Hinn fyrri var riðinn sumarið 2016 og hinn síðari 2018.
Flosareiðin, sem svo er kölluð, var farin í beinu framhaldi af fyrri áfanga Stjörnureiðarinnar 2016. Þá tókust Hermann og tveir félagar hans á hendur reiðtúr um slóðir Njáls sögu til að sannreyna frásögn hennar um för Flosa Þórðarsonar og brennumanna frá Svínafelli í Öræfum að Þríhyrningshálsum í þeim tilgangi að brenna inni Njál á Bergþórshvoli og syni hans.
Vorið 2009 var Vatnareiðin á dagskrá. Hugmyndin var að ríða á nokkrum dögum frá Hornafirði vestur að Hellisheiði og þess skyldi gætt að ríða ekki yfir nokkra brú ef vöð væru í boði. Hermann sagði að lagt hafi verið í þann leiðangur í minningu landpóstanna forðum tíð og hestamanna þeirra sem mótuðu hann í æsku.
Hægt er að kaupa bókina og styrkja um leið útgáfuna á henni í gegnum þessa vefsíðu á 25.000 kr.
Allar bækur sem eru seldar með þessum hætti eru áritaðar af Hermanni og Hjalta Jóni og svo verður nafn viðkomandi birt á heillaóskasíðu fremst í bókinni ef þess er óskað. Mögulegt er að birta tvö nöfn á heillaóskasíðu, t.d. í tilviki hjóna eða sambúðarfólks.
Bókaútgáfan Hólar er útgefandi bókarinnar
Með frelsi í faxins hvin: Riðið í strauminn
með Hermanni Árnasyni.